Fyrirtækjasvið

Verkefni stofunnar á fyrirtækjasviði eru m.a. fólgin í ráðgjöf vegna kaupa og sölu fyrirtækja, samningsgerðar, gerð áreiðanleikakannana og hagsmunagæslu á sviði samkeppnismála. Einnig býður Íslenska lögfræðistofan viðskiptavinum sínum lögfræðilega innheimtu vanskilakrafna

Áreiðanleikakannanir

Lögmenn stofunnar hafa mikla reynslu af gerð áreiðanleikakannanna vegna kaupa og sölu fyrirtækja. Reynsla lögmanna stofunnar nær aðallega til lögfræðilegs hluta slíkra kannanna á meðan fjármálahliðin hefur verið í höndum endurskoðenda. Við gerð áreiðanleikakannanna vinna lögmenn stofunnar náið með endurskoðendum til að tryggja ítarlega og vandaða skoðun söluandlagsins.

Stjórnsýsla

slenska lögfræðistofan tekur að sér gerð stjórnsýslukæra fyrir fyrirtæki og annast alla hagsmunagæslu vegna meðferðar mála hjá stjórnvöldum. Þá veita lögmenn stofunnar ráðgjöf til fyrirtækja og opinberra aðila á öllum sviðum stjórnsýslunnar og annast rekstur ágreiningsmála fyrir stjórnsýslunefndum, dómstólum eða hjá umboðsmanni Alþingis.

Vátryggingaréttur

Lögmenn Íslensku lögfræðistofunnar hafa mikla reynslu af hagsmunagæslu fyrir fyrirtæki og opinbera aðila vegna ágreinings í vátryggingamálum, bæði gagnvart tryggingarfélögum og fyrir úskurðarnefndum á sviði vátryggingamála.

Skattaréttur

Íslenska lögfræðistofan veitir fyrirtækjum aðstoð vegna meðferðar skattamála hjá íslenskum skatt- og tollyfirvöldum, hvort sem um er að ræða rannsókn mála, meðferð sektarmála eða meðferð refsimála fyrir dómstólum. Þá veita lögmenn stofunnar lögfræðilegar álitsgerðir á sviði skattamála.

Vinnuréttur

Lögmenn stofunnar hafa trausta þekkingu og reynslu af hagsmunagæslu og ráðgjöf á sviði vinnuréttar fyrir atvinnurekendur hvort sem um er að ræða einka- eða opinbera aðila. Hagsmunagæslan felst m.a. í ráðgjöf við gerð ráðninga- og kjarasamninga, úrræði sem unnt er að grípa til vegna brota starfsmanna og upplýsingagjöf varðandi önnur réttindi og skyldur starfsmanna og atvinnurekenda á vinnumarkaði.

Fjölmiðlaréttur

Lögmenn stofunnar búa yfir víðtækri reynslu af hagsmunagæslu á sviði fjölmiðlaréttar og hafa m.a. flutt fjölmörg meiðyrðamál fyrir dómstólum. Þá hafa lögmenn stofunnar einnig sinnt ráðgjöf á sviði fjarskiptaréttar fyrir einstaklinga og fyrirtæki á fjarskiptamarkaði.

Verktaka- og útboðsréttur

Lögmenn stofunnar hafa mikla reynslu á sviði verktaka- og útboðsréttar og hafa sinnt hagsmunagæslu bæði fyrir verktaka og verkkaupa. Sem dæmi má nefna ráðgjöf við gerð og túlkun verksamninga, við val á útboðsaðferðum, bjóðendum, gerð útboðsskilmála, verkuppgjöra auk ráðgjafar vegna ágreiningsmála sem upp kunna að koma. Þá hafa lögmenn stofunnar aðstoðað við gerð kæra til kærunefndar útboðsmála, sinnt hagsmunagæslu fyrir gerðardómum og dómstólum.

Innheimta vanskilakrafna

Íslenska lögfræðistofan tekur að sér lögfræðilega innheimtu vanskilakrafna fyrir einstaklinga, fyrirtæki, húsfélög, sveitarfélög og hið opinbera. Viðskiptavinir fyrirtækisins hafa aðgang að breiðum hópi lögmanna sem veita vandaða ráðgjöf þannig að tryggt sé að viðskiptavinurinn njóti bestu þjónustu sem völ er á. Áhersla er lögð á árangursríka innheimtu með lágmarkskostnaði þannig að kröfuhafi greiðir eingöngu útlagðan kostnað lögmannsstofunnar ef krafa innheimtist ekki.

Banka- og fjármálaréttur

Lögmenn stofunnar veita viðskiptavinum hennar sérhæfða ráðgjöf á sviði banka- og fjármálaréttar. Meðal verkefna á banka- og fjármálaréttarsviði má nefna lögfræðilega ráðgjöf varðandi lánssamninga, afleiðusamninga, tryggingarskjöl og útgáfu verðbréfa. Þá hafa lögmenn stofunnar víðtæka þekkingu á verðbréfamarkaðsrétti og hafa veitt þjónustu í fjölmörgum málum varðandi löggjöf um verðbréfaviðskipti og fjárfestinga- og verðbréfasjóði.

Félagaréttur

Lögmannsstofan kappkostar við að veita viðskiptavinum sínum lögfræðilega ráðgjöf varðandi félagaréttarleg málefni og hafa lögmenn stofunnar víðtæka reynslu af slíkri þjónustu. Meðal þeirra verkefna sem lögmenn stofunnar sinna er stofnun félaga, gerð stofnsamninga og samþykkta, ráðgjöf og þjónusta varðandi samruna, yfirtökur, hækkun og lækkun hlutafjár og gerð hluthafasamninga. Þá annast lögmenn stofunnar einnig skipulagningu og framkvæmd hluthafafunda, ásamt því að koma fram fyrir hönd viðskiptavina gagnvart stjórnvöldum og gæta hagsmuna þeirra fyrir dómstólum.

Hugverka- og auðkennaréttur

Lögmenn stofunnar búa yfir traustri þekkingu á hugverka- og auðkennarétti. Hagsmunagæsla viðskiptavina stofunnar felst aðallega í að tryggja að réttilega sé staðið að því að vernda auðkenni vöru og þjónustu í atvinnustarfsemi einstaklinga eða félaga. Í atvinnurekstri er mikilvægt að hafa í huga að réttur samkvæmt vörumerkjalögum gefur eiganda vörumerkis einkarétt á að nota merkið hér á landi og þannig komið í veg fyrir að aðrir noti í atvinnustarfsemi merki sem eru eins eða lík vörumerki viðkomandi aðila. Lögmenn stofunnar annast skráningu vörumerkja hjá Einkaleyfastofu, en með skráningu og notkun skapast ákveðin vörumerkjavernd sem kemur í veg fyrir notkun annarra aðila á eins eða líku vörumerki.

Samkeppnisréttur

Íslenska lögfræðistofan býr yfir góðri þekkingu á samkeppnisrétti og veitir fyrirtækjum alhliða ráðgjöf varðandi samkeppnisréttarleg málefni þeirra. Meðal verkefna á samkeppnisréttarsviði má nefna hagsmunagæslu vegna mála sem eru til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu og áfrýjunarnefnd samkeppnismála t.a.m. vegna meintrar misnotkunar á markaðsráðandi stöðu og meints samráðs fyrirtækja. Þá annast lögmenn stofunnar alla nauðsynlega hagsmunagæslu varðandi samruna fyrirtækja og sjá um tilkynningar og málarekstur gagnvart samkeppnisyfirvöldum ef svo ber undir.

Evrópuréttur

Lögmenn stofunnar búa yfir góðri þekkingu og reynslu á sviði Evrópu- og EES-réttar. Þjónusta stofunnar felst einkum í lögfræðilegri ráðgjöf varðandi réttarreglur EES-samningsins og hver sé réttarstaða einstaklinga og lögaðila sem hafa búsetu eða starfsstöð í ríkjum á evrópska efnahagssvæðinu. Einkum reynir á reglur á þessu sviði í málum sem varða samkeppnismál og samrunareglur, opinber útboð og milliríkjaviðskipti. Í ljósi þeirrar staðreyndar að stór hluti íslenskar löggjafar er reistur á Evrópulöggjöf er mikilvægt að viðskiptavinir stofunnar sem stunda viðskipti á evrópska efnahagssvæðinu sé veitt ráðgjöf á grundvelli túlkunar á regluverki Evrópusambandsins.